Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin hafnaði Mill Financial

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Enska úrvalsdeildin hefur hafnað beiðni frá bandaríska vogunarsjóðnum Mill Financial um að gerast löglegur eigandi knattspyrnufélags í deildinni.

Þetta kemur fram á fréttavef Sky Sports. Allir þeir sem vilja kaupa félag í ensku úrvalsdeildinni þurfa að ganga í gegnum skoðunarferli hjá stjórn deildarinnar um hvort þeir standist kröfur hennar.

Mill Financial óskaði eftir því að verða tekið til skoðunnar í gær en þeirri beiðni var hafnað.

Mill Financial eignaðist hlut George Gillett í Liverpool í síðasta mánuði og er talið að Tom Hicks, eigandi hins hlutans, hafi reynt að selja Mill Financial sinn hluta líka.

Þar með gæti vogunarsjóðurinn greitt skuld Liverpool við skoska RBS-bankann sem á að gjaldfalla í dag og eignast þannig félagið.

Eins og áður hefur verið sagt frá í dag er þó talið afar líklegt að bandaríska eignarhaldsfélagið NESV muni eignast Liverpool í dag og greiða skuld þess við RBS-bankann.

Þeir Hicks og Gillett fengu lögbannskröfu samþykkta á söluferlið í gær en hafa nú dregið hana til baka. Ekkert virðist því til fyrirstöðu að NESV eignist félagið en enn er beðið eftir tilkynningu frá Liverpool um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×