Fótbolti

Framkoma ákveðinna leikmanna hneykslaði Blanc

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Laurent Blanc fær það verðuga verkefni að koma franska landsliðinu í fótbolta aftur á rétta braut. Hann hefur nú tjáð sig um frammistöðu landsliðsins á HM.

Hann er eins og flestir Frakkar hneykslaður á því hvernig ákveðnir leikmenn franska landsliðsins höguðu sér í Suður-Afríku.

"Það sem truflar mig er að það er enginn kjarni í þessu liði eftir HM. Venjulega getur landsliðsþjálfari treyst á ákveðinn kjarna í liðum en hann er ekki til staðar hjá franska landsliðinu. Það er undir mér komið að finna þennan kjarna," sagði nýi landsliðsþjálfarinn.

Hann mun hitta leikmenn landsliðsins fljótlega og fara yfir framtíðina með þeim.

"Ég get ekki látið eins og ekkert hafi gerst í Afríku. Það myndi ekki fara vel ofan í fólk. ég fylgdist með þessum skrípaleik með sorg í hjarta. Hegðun ákveðinna leikmanna misbauð mér algjörlega. Staðan er viðkvæm og við verðum að funda um stöðuna."

Fyrsti leikur Blanc með landsliðið er vináttuleikur gegn Noregi í Osló þann 11. ágúst næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×