Enski boltinn

Cristiano Ronaldo: Rooney nær sér aftur á strik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney fagna marki fyrir Manchester United.
Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney fagna marki fyrir Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cristiano Ronaldo, fyrrum félagi Wayne Rooney hjá Manchester United, er viss um að enski landsliðsframherjinn nái sér aftur á strik eftir erfiðar vikur innan sem utan vallar. Rooney á enn eftir að spila sinn fyrsta leik síðan að hann skrifaði undir nýjan fimm ára samning.

„Wayne er ekki búinn að byrja þetta tímabil sérstaklega vel en hann er enn frábær leikmaður og ég er viss um að hann fari að sýna það fljótt aftur," sagði Cristiano Ronaldo við The Sun.

„Hann hefur tekið þá ákvörðun að spila áfram með United og við verðum öll að virða það. Það er ekki mitt hlutverk að gefa honum ráð en ég veit samt að þessir hlutir geta breyst mjög snögglega," sagði Ronaldo sem var seldur fyrir metupphæð til Real Madrid.

„Ég byrjaði heldur ekki þetta tímabil vel. Það er erfitt að spila alltaf í toppbolta. Ég hélt ró minni, vann vel og skilaði mínu starfi til liðsins. Skyndilega duttu inn nokkur mörk hjá mér og allt breyttist," sagði Ronaldo sem hefur skorað 9 mörk í spænsku deildinni til þess á tímabilinu.

„Fótboltinn er bara þannig íþrótt. Stundum er maður ekki að spila vel en svo skorar maður mark og allt viðmót breytist. Það mun líka gerast hjá Wayne," sagði Ronaldo.

„Ég naut þeirra fimm ára sem ég spilaði fyrir Sir Alex Ferguson. Við náðum alltaf vel saman og ég tel hann vera vin minn í dag auk þess að vera frábær stjóri. Ferguson og Mourinho eru að mínu mati bestu stjórarnir í heimi, annar er ungur en hinn er eldri. Þeir hafa unnið allt í fótboltanum," sagði Ronaldo að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×