Enski boltinn

Kom til Stoke fótboltans vegna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
AFP
Eiður Smári Guðjohnsen gekk í fyrradag í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Stoke City og gerði eins árs samning við félagið. Í samtali við fréttastofu Sky Sports í gær var hann spurður um ástæðurnar fyrir því að hann valdi að ganga til liðs við Stoke.

„Eingöngu fótboltans vegna," svaraði hann. „Það hefði verið auðvelt fyrir mig að vera áfram í Mónakó og njóta þar góða veðursins og fallegu bátanna. En það er knattspyrnan sem skiptir mig mestu máli og þess vegna tók ég þessa ákvörðun. Hún var auðveld þegar ég hugsa um þetta á þennan hátt."

Eiður hafði um nokkra kosti að velja áður en hann valdi Stoke. Hann var til að mynda sterklega orðaður við Fulham.

„Þeir hjá Stoke sýndu því mikinn áhuga að fá mig. Ég átti marga valkosti um allan heim í sannleika sagt og þetta réðst allt á síðustu stundu. En þeir sannfærðu mig einfaldlega um að koma hingað. Ég vildi bara fá að spila fótbolta," sagði Eiður enn fremur en hann var í láni hjá Tottenham á síðari hluta síðasta tímabils.

„Þegar ég kom aftur í ensku úrvalsdeildina gerði ég mér grein fyrir að ég vildi spila í henni. Enska úrvalsdeildin er sú mest spennandi í heimi að mínu mati."

Hann segir að Stoke sé metnaðarfullt félag sem stefni hátt. „Stoke hefur fengið nokkra nýja leikmenn í sumar og á síðustu tveimur tímabilum hefur liðið lent í 11. og 12. sæti. Vonandi verður mín reynsla til þess að liðið geti fest sig í sessi sem alvöru úrvalsdeildarlið sem allir þurfa að bera virðingu fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×