Enski boltinn

Zola: Ég gerði mistök

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianfranco Zola.
Gianfranco Zola. Mynd/GettyImages
Gianfranco Zola ætlar að reyna að læra af mistökunum sem hann gerði í stuttri stjóratíð sinni hjá West Ham en Ítalinn góðlegi var rekinn frá Upton Park eftir tímabilið. Gianfranco Zola ætlar að mæta á leik West Ham og Chelsea á Upton Park í dag.

West Ham endaði í 17. sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og rétt slapp við fallið eftir að hafa setið í fallsæti stóra hluta tímabilsins. Eigendur West Ham voru ekki sáttir með Zola og skiptu honum út fyrir Avram Grant.

„Ég er ekki að reyna að hlaupa undan neinni ábyrgð á því hvernig fór því ég gerði mistök og ber fulla ábyrgð á þeim. Ég gerði hinsvegar of margar málamiðlanir og var ekki nógu harður að framkvæma þá hluti sem ég vildi," sagði Gianfranco Zola.

„Ég spilaði þar til að ég var 39 ára en ég leit aldrei á það sem vinnu því þetta var alltaf það skemmtilegt. Þegar pressan kom á mig í stjórastólnum þá sást þá á mér því ég tók vinnuna með mér heim. Þú átt alltaf að skilja vinnuna eftir á skrifstofunni en mér tókst það ekki," sagði Zola.

„Kannski fundu leikmennirnir það að ég var stressaður og áhyggjufullur. Þetta var stór kennslustund fyrir mig og ég mun ekki gera sömu mistök aftur," sagði Zola.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×