Enski boltinn

Notts County í kaupbann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ungur stuðningsmaður Notts County fær hér eiginhandaáritun hjá Sol Campbell.
Ungur stuðningsmaður Notts County fær hér eiginhandaáritun hjá Sol Campbell. Nordic Photos / Getty Images

Notts County hefur verið sett í kaupbann þar sem skattayfirvöld í Bretlandi hafa nú krafist þess í annað skipti á skömmum tíma að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Í síðasta mánuði greiddi Notts County skattayfirvöldum 400 þúsund pund vegna vangoldinna skatta. Stjórnarformaður félagsins, Peter Trembling, segir að núverandi reikningur verði greiddur á næstu tveimur vikum.

En þar til að það gerist er félaginu bannað að kaupa nýja leikmenn til félagsins en félagaskiptaglugginn opnaði um áramótin.

Notts County er elsta atvinnumannafélag í knattspyrnu í heimi en það var stofnað árið 1862. Félagið lék síðast í efstu deild tímabilið 1991-92 en leikur nú í ensku D-deildinni.

Í júlí síðastliðnum var félagið keypt af fjárfestingarfélaginu Munto og var Sven-Göran Eriksson ráðinn sem yfirmaður knattspyrnumála. Félagið samdi við Sol Campbell sem ákvað svo að hætta eftir að hafa spilað aðeins einn leik með félaginu.

Svíinn Hans Backe var ráðinn knattspyrnustjóri en hann hætti í síðasta mánuði eftir að Trembling keypti félagið af Munto sem hafði misst áhuga á verkefninu. Notts County hefur ekki enn fastráðið knattspyrnustjóra í stað Backe.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×