Fótbolti

Spila tvo úrslitaleiki í staðinn fyrir einn vegna ótta við ólæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er heitt á milli stuðningsmanna Feyenoord og Ajax.
Það er heitt á milli stuðningsmanna Feyenoord og Ajax. Mynd/AFP
Hollenska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að úrslitaleikurinn í hollensku bikarkeppninni verði gerður að tveimur bikarúrslitaleikjum og að liðin spili heima og heiman líkt og gengur og gerist í Evrópukeppnunum.

Erkifjendurnir Feyenoord og Ajax eru komin í bikarúrslitin og það varð niðurstaðan á fundi hollenska sambandsins, félaganna og yfirvalda í Amsterdam og Rotterdam að best væri að spila á heimavelli hvors liðs til þess að minnka hættuna á ólátum milli stuðningsmanna.

Fyrri leikurinn fer fram í Amsterdam 25. apríl en sá seinni verður spilaður í Rotterdam 6. maí. Bikarúrslitaleikurinn hefur farið fram á heimavelli Feyenoord í Rotterdam allar götur síðan 1989.

Yfirvöld í Rotterdam ætluðu fyrst að hleypa tíu þúsunds stuðningsmönnum frá hvoru liði inn á úrslitaleikinn en völlurinn tekur 48 þúsund manns. Fljótlega bárust þó fréttir af því að stuðningsmenn beggja liða væru búnir að redda sér miðum inn á hlutlausa svæðið á vellinum sem voru það slæmar fréttir að ákveðið var að breyta bikarúrslitaleiknum í tvo leiki spilaða heima og að heiman.

Fyrir tveimur árum ákváðu borgaryfirvöld í Amsterdam og Rotterdam að engir stuðningsmenn gestaliðanna mættu koma á innbyrðisleiki Feyenoord og Ajax næstu fimm árin eftir að stuðningsmenn félaganna höfðu ítrekað lent saman.

Það verður einnig svo í þessum tveimur úrslitaleikjum og því mega stuðningsmenn Feyenoord ekki mæta á fyrri leikinn og stuðningsmenn Ajax mega ekki láta sjá sig á seinni leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×