Enski boltinn

Scott Parker að gera nýjan fimm ára samning við West Ham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott Parker.
Scott Parker. Mynd/Getty Images

Scott Parker, fyrirliði West Ham, er ekki á förum frá félaginu eins og einhverjir hafa verið að spá fyrir í sumar. Tottenham hafði áhuga á þessum öfluga miðjumanni en hann er að því kominn að gera nýjan fimm ára samning við West Ham.

„Ég hef lofað stuðningsmönnunum því að ég myndi ekki láta Scott Parker fara og ég stend við það. Ef Scott kæmi til mín og myndi biðja um að fá að fara þá myndi ég svara: Fyrirgefðu, Scott en ég hef gefið okkar stuðningsmönnum loforð," sagði David Sullivan annar eiganda West Ham, við Evening Standard.

„Ég hefði síðan minnt hann á það að það væri of seint að finna annan leikmann í staðinn og hefði síðan beðið hann um eitt ár til viðbótar. Hann hefði síðan fengið að fara næsta sumar. Scott hefur hinsvegar aldrei nefnt slíkt," sagði David Sullivan.

„Ef við fengjum tíu milljóna punda tilboð í Parker þá myndi ég ekki selja hann og ef að við fengjum 30 milljóna punda tilboð þá þyrfti ég að hugsa mig vel um," bætti Sullivan við.

Scott Parker mun fá kauphækkun í nýja samningnum sem ætti að vera um 20 milljón punda virði og myndu þá gefa honum rúmlega 3,7 milljarða íslenskra króna í vasann næstu fimm árin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×