Enski boltinn

Arsenal fylgir toppliðunum fast eftir - vann Bolton 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal er þremur stigum á eftir toppliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni eftir 2-0 sigur á Bolton á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. Cesc Fabregas og Fran Merida skoruðu mörk Arsenal-manna eftir sendingar frá brasilíska Króatanum Eduardo da Silva.

Owen Coyle tapaði þar með sínum fyrsta leik sem stjóri Bolton en hann þarf aftur að mæta Arsenal á miðvikudaginn kemur. Bolton er í næstneðsta sæti einu stigi frá öruggu sæti en á tvo leiki inni á næstu lið fyrir ofan.

Cesc Fabregas kom aftur inn í lið Arsenal eftir meiðsli og kom liðinu í 1-0 á 28. mínútu með laglegu marki eftir frábært þríhyrningarspil við Eduardo da Silva.

Varamaðurinn Fran Merida skoraði seinna markið á 78. mínútu eftir sendingu Eduardo en Fabregas átti einnig þátt í undirbúningi þess marks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×