Enski boltinn

NESV sagt reiðubúið að bíða eftir Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool létu í sér heyra í gær.
Stuðningsmenn Liverpool létu í sér heyra í gær. Nordic Photos / Getty Images

NESV, eignarhaldsfélagið sem hefur hug á að festa kaup á Liverpool, er sagt reiðubúið að bíða á meðan verið er að greiða úr lagaflækjum er varðar sölu þess.

Eins og frægt er úrskurðaði breskur dómstóll í gær að stjórn Liverpool mætti selja félagið í óþökk eigandanna, George Gillett og Tom Hicks.

En örfáum klukkustundum síðar fengu þeir Gillett og Hicks dómstól í Texas-fylki í Bandaríkjunum til að setja lögbann á söluna. Sögðu þeir að verið væri að svindla á þeim með því að selja Liverpool langt undir markaðsvirði. Fara þeir fram á 1,6 milljarða dollara í skaðabætur.

David Bond, yfirmaður íþróttadeildar breska ríkisútvarpsins, hefur eftir sínum heimildum að NESV og eigandi þess, John Henry, hafi skuldbundið sig Liverpool og ætli að bíða þar til niðurstaða er komin í söluferlinu.

Mál þeirra Gillett og Hicks verður tekið fyrir í Texas þann 25. október næstkomandi. Hins vegar fellur lán skoska bankans RBS á Liverpool á morgun. Ekki er talið líklegt að þeir Gillett og Hicks geti borgað lánið og blasir þá ekkert annað við Liverpool en að það verði sett í greiðslustöðvun.

Fari svo verða níu stig dregin af félaginu af stjórn ensku úrvalsdeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×