Íslenski boltinn

Bjarni Jó: Vorum lengi að átta okkur á gervigrasinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Anton
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki ánægður með að hafa þurft að sætta sig við eitt stig á Selfossi í kvöld.

„Við spiluðum ágætlega og vorum ekki verri þegar við vorum manni færri," sagði Bjarni. „En við vorum þó nokkuð lengi að jafna okkur á gervigrasinu. Gervigras er ekki það sama og gervigras," sagði hann í léttum dúr en Stjarnan leikur sína heimaleiki einnig á gervigrasi.

„Grasið hér er miklu mýkra en í Garðabænum og boltinn hoppar allt öðruvísi hér. Fyrri hálfleikur var því slappur hjá okkur."

„Við ákváðum í hálfleik að byrja að spila boltanum og sýna meiri kjark fram á við. Það fannst mér ganga vel eftir og stjórnuðum við leiknum í nánast öllum síðari hálfleiknum."

Stjarnan er nú með fimm stig eftir fyrstu fjóra umferðirnar og er Bjarni ekki ósáttur við það.

„Við vissum að það yrði erfitt að toppa byrjunina frá því í fyrra. Þetta er miklu jafnari deild en menn þorðu að vona og spádómar ekki endilega í takt við það sem hefur gerst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×