Enski boltinn

Tevez í Argentínu í nokkra daga til viðbótar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez verður áfram í Argentínu í einhverja daga til viðbótar en til stóð að hann myndi snúa aftur til Englands í dag.

Tevez er á mála hjá Manchester City en hefur verið sagður haldinn slæmri heimþrá. Hann fékk leyfi frá Roberto Mancini, stjóra City, til að fara heim til Argentínu í síðustu viku til að takast á við „persónuleg vandamál" eins og Mancini orðaði það.

Tevez hefur átt við meiðsli að stríða og nú greina enskir fjölmiðlar frá því að Tevez hefði sett sig í samband við Mancini og beðið um að fá að vera í nokkra daga til viðbótar ytra. Læknar þar hafi lagt að honum að vera frekar undir eftirliti þeirra næstu daga og að ekki væri ráðlagt að fara í tíu klukkustunda flugferð til Englands í hans ástandi.

Mancini sagði á föstudaginn síðastliðinn að hann hefði ekki áhyggjur af löngum ferðalögum Tevez en nú er ljóst að hann mun ekki snúa aftur fyrr en á fimmtudaginn, í fyrsta lagi. Óvíst er hvort hann geti spilað með City gegn West Brom um helgina og í grannaslagnum við Manchester United á miðvikudaginn í næstu viku.

Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir Mancini en hann er sagður hafa misst stjórn á leikmönnum sínum. Í síðustu viku bárust fregnir af því að nokkrir leikmanna City, þeir Gareth Barry, Joe Hart, Shay Given og Adam Johnson, hafi farið á fyllerí í Skotlandi og bað sá fyrstnefndi Mancini opinberrar afsökunar á því. City tapaði fyrir Wolves í ensku úrvalsdeildinni um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×