Enski boltinn

Mark Hughes hvetur Giggs að taka við landsliði Wales

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Mynd/GettyImages
Mark Hughes segir að Ryan Giggs ætti að taka tilboðinu um að gerast landsliðsþjálfari Wales ef að honum verður boðið starfið. Wales leitar nú að nýjum þjálfara eftir að John Toshack hætti með liðið í vikunni.

Mark Hughes hóf einmitt sinn þjálfaraferil sem landsliðsþjálfari Wales en hann tók við liðinu 1999 og stýrði liðinu til ársins 2004 þegar hann gerðist stjóri hjá Blackburn. Hughes er núna stjóri hjá Fulham.

Ryan Giggs hefur sagt að hann hafi áhuga á að þjálfa velska landsliðið í framtíðinni en þessi 36 ára gamli leikmaður er enn á fullu með liði Manchester United.

„Ég var ennþá að spila í ensku úrvalsdeildinni þegar ég fékk landsliðsþjálfarastarfið hjá Wales. Ég hélt að ég gæti spilað líka með starfinu en komst fljótt að því að það var ómögulegt," sagði Mark HUghes.

„Það verður fróðlegt að sjá hvort Ryan hafi áhuga á starfinu núna. Hann verður að ákveða það hvort þetta sé rétt skref fyrir hann. Ef hann myndi hringja í mig og spyrja mitt álit þá myndi ég segja honum að taka við starfinu," sagði Hughes.

„Þetta var það besta sem ég gerði fyrir minn þjálfaraferil. Ég lærði mikið af þessu starfi og það hjálpaði mér að verða sá stjóri sem ég er í dag," sagði Mark HUghes sem er á því að þjálfari liðsins ætti að vera velskur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×