Innlent

Félag íslenskra bókaútgefenda óttast ólæsi

Kristján B. Jónasson.,
Kristján B. Jónasson.,

Félag íslenskra bókaútgefenda úthlutaði í dag fyrstu styrkjunum úr nýstofnuðum Skólasafnasjóði til bókasafna grunnskólanna samkvæmt tilkynningu frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Þar segir að markmið sjóðsins er að vekja athygli á þeim gríðarlega niðurskurði sem orðið hefur á framlögum til bókasafna grunnskólanna um allt land. Nöfn tíu skóla voru dregin út í beinni útsendingu hjá Sirrý á Rás tvö og hljóta skólabókasöfn hvers skóla um sig, 30 þúsund króna styrk til bókakaupa.

Í Viku bókarinnar dreifa bókaútgefendur Ávísun á lestur inn á öll heimili landsins en með hana í höndum er hægt að fá 1.000 kr. afslátt af bókakaupum. Af hverri ávísun sem nýtt er til bókakaupa renna 100 krónur í Skólasafnasjóð og er hægt að mæla með sínum skóla með því að skrifa nafn hans á ávísunina. Með því að úthluta styrkjum úr sjóðnum vill Félag íslenskra bókaútgefenda minna á mikilvægi þess starfs sem unnið er á skólabókasöfnum um allt land.

„Skólabókasöfnin eru hornsteinn lestrarhvatningar barna á Íslandi," segir Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda. „Þegar tekin er ákvörðun um að stöðva fjárveitingar til þeirra er beinlínis verið að hvetja til hnignunar bókmenningarinnar, sem er óumdeilt einn mikilvægasti þátturinn í sjálfsmynd okkar sem þjóðar - við erum bókaþjóð. Lestrarhæfni er grundvöllur námsárangurs og við höfum alls ekki náð þeim árangri sem við viljum í alþjóðlegum námsmatskönnunum, líkt og PISA. Ég trúi því ekki að nokkur vilji þjóðfélag sem elur upp ólæs börn."

Skólarnir sem hljóta styrk að þessu sinni eru tíu talsins:

Brekkubæjarskóli Akranesi, Brekkuskóli Akureyri, Grunnskólinn Borgarnesi, Lundarskóli Akureyri, Lækjarskóli Hafnarfirði, Melaskóli Reykjavík, Myllubakkaskóli Reykjanesbæ, Barnaskóli Norðfjarðar, Grunnskóli Bolungarvíkur og Öskjuhlíðarskóli Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×