Enski boltinn

Ronaldo vill vinna titla hjá Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Cristiano Ronaldo hefur trú á því að hann geti unnið marga titla hjá Real Madrid, rétt eins og hann gerði hjá Manchester United áður.

Ronaldo hefur farið á kostum með Real undanfarnar vikur og skorað tíu mörk í síðustu fjórum deildarleikjum liðsins.

Hann skoraði alls 84 mörk í 196 leikjum með United á sínum tíma og varð þrívegis Englandsmeistari með félaginu.

„Ég vil vinna jafn marga titla með Madrid og ég gerði með United," sagði Ronaldo við brasilíska fjölmiðla í gær.

„Það er mín áskorun. Mér líður vel og er með mikið sjálfstraust. Ég vil halda áfram á þessari braut. Markmiðið er alltaf það sama - að vinna."

„Við erum með mjög gott lið og ég er viss um að ef við leggjum mikið á okkur getum við með smá heppni unnið titla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×