Íslenski boltinn

5 tímar í fyrsta leik: Heimir hefur unnið ellefu leiki í röð gegn Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Daníel
Valur og FH leika í kvöld opnunarleikinn í Pepsi-deild karla þegar Íslandsmeistarar síðustu sex tímabila mætast á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Einn maður sem verður í aðalhlutverki í kvöld þekkir nánast ekkert annað en að taka þrjú stig út úr leikjum á móti Val.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hefur unnið ellefu leiki í röð gegn Val í deild eða bikar sem annaðhvort leikmaður (7) eða aðalþjálfari (4). Síðasta tap Heimis fyrir Val í áhrifastöðu var þegar hann lék með Skagamönnum á móti Val á Akranesvelli 29. ágúst 1999.

Valsmenn eru búnir að vinna FH þrisvar sinnum síðan Heimir kom yfir í FH en það var árin 2006 og 2007 þegar Heimir var aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar og telst því ekki hafa verið í beinni áhrifastöðu í þeim leikjum. Heimir missti auk þess að sigurleik FH á Val sumarið 2005 vegna meiðsla.

Markatalan úr síðustu ellefu leikjum Heimis á móti Val sem annaðhvort leikmaður eða aðalþjálfari er 25-3 FH-liðsins í vil þar af hafa lið hans haldið hreinu síðustu 567 mínútur á móti Val.

Síðustu leikir Heimis Guðjónssonar á móti Val

Aðalþjálfari

20. september 2009 FH-Valur 2-0

2. júlí 2009 Valur-FH 0-5

13. september 2008 FH-Valur 3-0

24. júní 2008 Valur-FH 0-1

Leikmaður

15. júní 2005 Valur-FH 0-1

21.júlí 2003 (bikar) FH-Valur 1-0

28. júlí 2003 Valur-FH 2-3

29. maí 2003 FH-Valur 4-0

20. ágúst 2001 Valur-FH 1-2

19. júní 2001 FH-Valur 1-0

15. september 2000 (B-deild) Valur-FH 0-2

14. júlí 2000 (B-deild) FH-Valur 1-1

29. ágúst 1999 (með ÍA) ÍA-Valur 0-1






Fleiri fréttir

Sjá meira


×