Enski boltinn

Robinson leggur landsliðshanskana á hilluna

Elvar Geir Magnússon skrifar
Paul Robinson.
Paul Robinson.

Paul Robinson, markvörður Blackburn, hefur tilkynnt að hann sé hættur að leika fyrir landslið Englands. Þetta kemur aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann var valinn í hópinn til að leika gegn Ungverjalandi næsta miðvikudag.

Robinsons er 30 ára og lék með Englandi á HM 2006 en hefur síðan verið ýtt til hliðar þar til kallið kom fyrir Ungverjaleikinn.

„Það er langt síðan ég hef verið valinn. Ég lít ekki á mig sem þriðja eða fjórða markvörð og finnst það hlutverk mjög pirrandi," segir Robinson sem er fyrrum leikmaður Leeds og Tottenham.

Hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Ástralíu 2003 og hefur síðan leikið 41 landsleik. Hann gerði sig sekan um slæm mistök í undankeppni Evrópumótsins 2008, þau frægustu þegar hann hleypti sendingu Gary Neville til baka í markið.

Hann lék síðast fyrir England í 2-1 tapi gegn Rússlandi 2007 en hann var ekki valinn í landsliðshóp í tvö ár eftir þann leik.

Fyrir tveimur árum gekk hann til liðs við Blackburn og hefur fundið taktinn á Ewood Park. „Það er ekki litið á mig sem keppinaut um aðalmarkvarðarstöðu landsliðsins og því þykur mér best fyrir mig og Blackburn að ég einbeiti mér algjörlega að því að leika fyrir félag mitt," segir Robinson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×