Enski boltinn

Holloway segir gagnrýnendum að halda kjafti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Ian Holloway, stjóri Blackpool, er þekktur fyrir að gefa mikið af sér í viðtölum við fjölmiðla og það var engin undanteking á því í gær eftir sigur hans manna á West Brom, 2-1.

Sumir sparkspekingar spáðu því fyrir tímabilið að Blackpool yrði lélegasta liðið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og að það myndi bæta met Derby County sem fékk ellefu stig allt tímabilið 2007-8. Blackpool er nú með þrettán stig eftir sigurinn í gær.

„Við verðum ekki það lið sem fær fæstu stig í sögu deildarinnar. Sá sem skrifaði það getur haldið kjafti," sagði Holloway. „Svona líður mér. Þetta var ósanngjarnt og þeir dæmdu okkur of snemma."

Sigurinn í gær var fyrsti heimasigur Blackpool í efstu deild síðan 1971. Liðið er nú í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Holloway var í dag dæmdur í eins leiks bann og sektaður um 9500 pund fyrir ummæli sem hann hafði um dómara leiks Blackpool og Blackburn þann 25. september síðastliðinn.

Hann missir því af næsta leik Blackpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×