Innlent

Kjósendurnir sýna óánægjuna í verki

Mynd/Stefán Karlsson

Fréttaskýring: Hvað má lesa um þankagang kjósenda úr niðurstöðum skoðanakönnunar á fylgi flokkanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor?

Það kemur ef til vill ekki sérstaklega á óvart að Besti flokkurinn, grínframboð Jóns Gnarr, njóti nokkurs stuðnings eftir það sem á undan hefur gengið í íslenskum stjórnmálum.

Fáir reiknuðu þó líklega með að flokkurinn mældist með stuðning tæplega þrettán prósenta kjósenda, eins og niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var á fimmtudagskvöld leiddu í ljós. Fengi flokkurinn þann stuðning í kosningunum næði hann tveimur mönnum í borgarstjórn.

„Mitt mat er að kjósendur séu að senda stjórnmálamönnum ljótan fingur," segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Hann segir kjósendur senda stjórnmálamönnum almennt þessi skilaboð, ekki borgarfulltrúunum sérstaklega. Skilaboðin séu send með því annars vegar að neita að lýsa stuðningi við einhvern af flokkunum, og hins vegar með því að styðja yfirlýst grínframboð.

Frambjóðendur Besta flokksins hafa þegar gefið út nokkurn fjölda kosningaloforða á borð við að fá íkorna í Hljómskálagarðinn, en hafa einnig lýst því yfir að þeir hyggist svíkja öll kosningaloforð. Þá er yfirlýst markmið framboðsins að koma Jóni Gnarr, skemmtikrafti og oddvita listans, í þægilega og vel launaða vinnu.

Það síðastnefnda virðist í það minnsta ætla að ganga eftir. Breytist ekkert er spurningin frekar hversu marga hann tekur með sér í borgarstjórnina.

Grétar Þór segir augljóst að borgarpólitíkin komist ekki að hjá borgarbúum, hún sé einfaldlega ekki í umræðunni. Almenningur virðist í það minnsta eiga nóg með að velta fyrir sér Icesave, væntanlegri rannsóknarskýrslu, atvinnu­ástandinu og hruninu almennt.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem væntanleg er 12. apríl, mun að mati Grétars gera það að verkum að kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí verður stutt og snörp. Hann segir ólíklegt að sveitarstjórnarmálin komist að í umræðunni fyrr en í maí.

Enn eru rúmir tveir mánuðir til kosninga, kosningabaráttan er eftir og því getur margt breyst. Verði niðurstaða kosninga í takt við niðurstöður könnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 er ljóst að erfitt gæti orðið að mynda starfhæfan meirihluta í borginni.

Líklega veldur niðurstaðan frambjóðendum Vinstri grænna vissum áhyggjum, enda fylgi flokksins í borginni langt undir fylgi flokksins á landsvísu. Fylgið er reyndar svipað og kjörfylgi flokksins fyrir fjórum árum, en það getur varla verið ásættanlegt eftir þær breytingar sem orðið hafa á fylgi flokksins á landsvísu frá síðustu sveitastjórnarkosningum.

Í raun má segja að ómögulegt væri að mynda meirihluta án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, nema með því að bjóða Besta flokknum upp í dans. Besti flokkurinn mun líklega seint teljast álitlegur kostur til samstarfs fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna, en öðrum er ekki til að skipta.

Ekki munar þó miklu að Framsóknarflokkurinn nái manni inn í borgarstjórn. Þá hefur nýtt framboð Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa ekki byrjað að kynna sig og sínar áherslur, og óvíst er hvort Frjálslyndi flokkurinn verður í framboði. Það getur því mikið breyst fyrir kosningarnar 29. maí.

brjann@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×