Íslenski boltinn

Leyfum rebbunum á toppnum að taka allt sem hreyfist

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ljóst er að Marel leikur ekki í búningi Vals á komandi sumri.
Ljóst er að Marel leikur ekki í búningi Vals á komandi sumri.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar í Garðabæ, segir að engar viðræður séu í gangi við sóknarmanninn Marel Baldvinsson þó Marel sé vissulega velkominn.

Marel lék með Val en lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil, hann íhugar að taka þá fram á ný og hefur eitthvað æft með Val í vetur.

Fram kom á Fótbolta.net í dag að Marel hefur gefið Valsmönnum afsvar og hann var sagður í viðræðum við Stjönuna.

„Ég veit ekki til þess að það séu neinar viðræður við hann. Þetta er einhver talnaleikur hjá ykkur í fréttamennskunni. Það var til dæmis búið að bendla Guðmund Pétursson við okkur en við ræddum aldrei við hann," sagði Bjarni í samtali við Vísi.

„Marel er að þjálfa 2. flokkinn hjá okkur og ég vildi svo sannarlega að hann kæmi. Hann er bara að hugsa sinn gang og íhuga að fara af stað aftur. Við föluðumst eftir kröftum hans fyrir áramót en engar viðræður hafa átt sér stað."

Stjörnumenn eru þó í leikmannaleit. „Við ætlum að styrkja okkur aðeins meira. En við leyfum rebbunum á toppnum að taka allt sem hreyfist, svo sjáum við hvað verður eftir. Ég þarf að styrkja varnarleik liðsins aðeins svo við erum að skoða okkar mál," sagði Bjarni.

Stjörnuliðið fer í æfingaferð til Spánar á næstunni og er líklegt að einhverjir erlendir leikmenn komi til móts við hópinn þar og verði skoðaðir. „Þetta er þurrausið hér innanlands," sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×