Enski boltinn

Rooney vill fá 150.000 pund í vikulaun eftir skatt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Samkvæmt heimildum goal.com þá vill Wayne Rooney fá 150.000 pund í vikulaun eftir skatt en Man. Utd var aðeins tilbúið að bjóða honum 20.000 punda launahækkun.

Samningurinn sem United var til í að bjóða Rooney tengdist mikið ímyndarrétti og treyjusölu. Rooney átti að fá 110.000 pund í vikulaun og svo skattfrjálsan 2 milljón punda pakka tengdan ímyndarrétti sem átti að hækka launin verulega.

Hann hefði þá verið með í kringum 150.000 pund í vikulaun sem er talsvert frá því sem Man. City er sagt vera til í að greiða honum.

Umboðsmenn Rooney vilja að umbjóðandi sinn fái 150.000 pund í vikulaun eftir skatt sem gera laun upp á 250.000. Eftir skattabreytingar í apríl á næsta ári yrðu launin að fara í 300.000 pund svo hann fengi 150.000 útborgað.

Takist Rooney að þvinga slíkan samning fram mun hann slá öll launamet í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og fá 78 milljónir punda á 5 árum.

Yaya Toure hjá Man. City er sagður vera launahæstur í dag með 185.000 pund í vikulaun en þau laun fara í 221.000 í apríl þegar skattabreytingarnar eiga sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×