Enski boltinn

Roy Hodgson hefur lofað Pacheco því að hann fái að spila í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Pacheco með Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool.
Daniel Pacheco með Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool. Mynd/AFP
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, hefur lofað spænska unglingalandsliðsmanninum Daniel Pacheco að hann fái tækfæri með aðalliðinu í vetur en Pacheco sló í gegn með spænska 19 ára landsliðinu á EM í sumar þar sem hann fékk gullskóinn.

Daniel Pacheco gæti fengið tækifærið strax um helgina þar sem að hvorki Dirk Kuyt né David Ngog geta spilað á móti Birmingham á sunnudaginn. Pacheco hefur verið á Anfield síðan að hann kom þangað frá Barcelona árið 2007.

„Hann er ungur en það er frábært að við getum gefið honum tækifæri til að spila. Ég er viss um það að hann mun fá að spila enn meira eftir því sem líður á tímabilið," sagði Roy Hodgson í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Þar sem að við erum líka í Evrópukeppninni þá kemur sér það vel fyrir mig að geta gefið Pacheco tækifæri alveg eins og þeim Jay Spearing og Jonjo Shelvey. Þeir þurfa að spila og við höfum mörg tækifæri til þess að spila þeim á næstu mánuðum," sagði Hodgson.

„Ég vona að ég fái að vera stór hluti af liðunu. Ég ætla bara að halda áfram að vera duglegur að æfa og ætla síðan að grípa öll þau tækfæri sem stjórinn gefur mér," sagði Daniel Pacheco sem á að baki sjö leiki með aðalliði Liverpool. Hann á enn eftir að skora fyrsta markið sitt fyrir félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×