Enski boltinn

Redknapp vill fá William Gallas til Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
William Gallas.
William Gallas. Mynd/AFP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, er að reyna að fá til sín franska varnarmanninn William Gallas og telur hann nú vera helmingslíkur á því að Gallas komi til Spurs. Redknapp segir að Gallas gæti hjálpað Tottenham til að vera ofar en Arsenal í töflunni í vor.

Opnunarleikur ensku úrvalsdeildarinnar milli Tottenham og Manchester City er nýhafinn á White Hart Lane og hann gæti gefið góða vísbendingu um styrkleika liðanna í upphafi móts.

„Við verðum að herða okkur ef við ætlum að verða ofar en Arsenal. Við höfum verið langt á eftir Arsenal í mörg ár en nú er tækifæri fyrir okkur að enda ofar. Það eitt yrði mikill sigur fyrir stuðningsmenn Tottenham en til að það gerist þá þurftum við að bæta okkur aðeins," sagði Harry Redknapp, stjóri Tottenham.

„Ég er hrifinn af Gallas og hann væri frábær liðstyrkur. Ég sagði í byrjun ársins að það væri þrír frábærir leikmenn í boði sem voru með lausan samning; David James, Joe Cole og William Gallas," sagði Redknapp.

„Það er möguleiki fyrir okkur að semja við Gallas og launakröfur hans eru ekki vandamál því hann er ekkert gráðugur.Hans fólk hefur hringt í okkur og við höfum rætt málið. Hann er reyndur leikmaður, hefur spilað á stóra sviðinu og unnið titil með Chelsea," sagði Redknapp um hinn 32 ára gamla Frakka sem Arsene Wenger lét fara frá Arsenal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×