Íslenski boltinn

Heimir Guðjónsson: Það er brekka í Hafnarfirði

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Íslandsmeistararnir byrja mótið illa í ár.
Íslandsmeistararnir byrja mótið illa í ár. Fréttablaðið/Vilhelm
Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara FH, segir sigur Blika í kvöld sanngjarnan. Breiðablik skoraði tvö mörk, eða Kristinn Steindórsson öllu heldur, án þess að FH svaraði fyrir sig. "Við lögðum upp með að pressa á þá í byrjun. Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera allt í lagi en seinni hálfleikurinn var ekki nógu góður og Gulli hélt okkur á floti í leiknum," sgði Heimir sem endurheimti fyrirliðann Matthías Vilhjálmsson, Atla Guðnason og Hjört Loga Valgarðsson í byrjunarliðið. Samt sem áður hikstar FH-vélin enn. "Við verðum að átta okkur á því að við vorum að spila við mjög gott lið. Við erum búnir að tapa tveimur leikjum og það er brekka í Hafnarfirði. Nú höfum við viku til að laga það sem er að," sagði þjálfarinn. En er mikið að? "Miðað við þennan leik er ýmislegt sem þarf að lagfæra. Menn voru staðir í seinni hálfleik, sendingarnar voru ekki nógu góðar og við misstum boltann á slæmum stöðum," sagði Heimir sem fannst sigurinn sanngjarn. Torgeir Motland og Jakob Neestrup voru á bekknum í kvöld en komu báðir inn á án þess að breyta leiknum. "Þeir komust bara ekki í liðið. Ég ákvað að breyta liðinu eftir ÍBV leikinn sem var heldur ekki góður." Tommy Nielsen átti góðan leik í FH vörninni en hann var slakur í leiknum gegn ÍBV. "Tommy er búinn að spila þrjá leiki í deildinni, hann var slakur gegn ÍBV en mér fannst hann góður í kvöld. Hann er gríðarlega mikilvægur liðinu. Hann hefur verið besti hafsentinn í deildinni síðan 2003 og besti útlendingurinn sem hefur spilað í deildinni. Það kom ekkert annað til grein en að láta hann spila í kvöld," sagði Heimir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×