Íslenski boltinn

Ólafur Örn til Grindavíkur? - „Útiloka ekki neitt“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason í leik með Brann.
Ólafur Örn Bjarnason í leik með Brann.

Ólafur Örn Bjarnason, leikmaður Brann í Noregi, vildi ekki útiloka að hann myndi taka við þjálfun Grindavíkur á næstunni.

Ólafur Örn er einn þeirra sem hefur þótt koma til greina sem eftirmaður Lúkas Kostic samkvæmt heimildum Vísis. Kostic var á miðvikudaginn rekinn sem þjálfari Grindavíkur.

„Ég veit það ekki. Samningur minn við Brann er út tímabilið og ég veit ekki meir," sagði Ólafur spurður hvort að hann væri á leið heim til Grindavíkur.

„Ég heyri alltaf reglulega í mönnum í Grindavík en það hafa engar formlegar viðræður átt sér stað," sagði hann en hann vildi ekki útiloka að það kæmi til greina hjá honum að þjálfa og spila með Grindavík nú í sumar.

„Ég myndi ekki útiloka neitt en ég held að það gæti orðið dálítið snúið að vera bæði þjálfari og leikmaður. En það er ekkert útilokað hjá mér. Ég er leikmaður Brann og þó svo að ég myndi vilja koma er það að lokum Brann sem ræður."

Ólafur hefur ekki óskað eftir því að fá að losna undan samningi sínum við Brann en hann rennur út í haust.

„Ég veit hver staðan er í Grindavík og hvað hefur verið að gerast þar síðustu daga. Ég hef spjallað við menn sem ég þekki þar en það hafa engar samningaviðræður átt sér stað."

„En þetta er síðasta árið mitt hér í Noregi og við erum væntanlega á leiðinni heim til Íslands. Það er því ekki hægt að útiloka neitt."

Ólafur Örn hefur lengi haft áhuga á því að gerast þjálfari að leikmannaferlinum loknum. „Ég hef verið að mennta mig hér í Noregi og er ekki búinn með öll þau stig sem þarf til. En það var alltaf hugsunin að fara út í þjálfun síðar meir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×