Innlent

Þorsteinn Pálsson: Ekki á leið úr flokknum

Þorsteinn var formaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1983 til 1991.
Þorsteinn var formaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1983 til 1991. Mynd/Eggert Jóhannesson
„Frá mínum bæjardyrum séð tók landsfundurinn mjög óskynsamlega ákvörðun. Þessi niðurstaða er bæði vond fyrir flokkinn og Evrópumálstaðinn," segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um ályktun um Evrópumál sem samþykkt var á landsfundi flokksins um helgina. Flokkurinn vill nú að umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Þorsteinn segist ekki sjá fyrir sér stofnun nýs flokks óánægðra sjálfstæðismanna.

„Niðurstaðan þrengir mjög svigrúm Sjálfstæðisflokksins sem getur eftir þetta varla starfað með öðrum en Vinstri grænum en hún veikir líka Evrópumálstaðinn og ég tel að það sé slæmt fyrir samfélagið því að aðildin er Íslandi mikilvæg bæði að pólitískum og efnislegum ástæðum ef menn ætla að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar," segir Þorsteinn.

Áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokkinn eru óánægðir með niðurstöðuna og ekki er útilokað nýr flokkur verði stofnaður. Í tölvupósti í gær til Sjálfstæðra Evrópusinna nefndi formaðurinn, Benedikt Jóhannesson, til að mynda að sumir sjálfstæðismenn vilji stofna nýjan flokk. Þorsteinn hefur verið orðaður við forystuhlutverk í því stjórnmálaafli. Aðspurður hvort það komi til greina segir Þorsteinn: „Það þarf meira að ganga á áður en ég fer úr flokknum. Menn losna ekki við mig á svona einfaldan hátt."

Þorsteinn segist aftur á móti skilja vel vonbrigði manna. „Þau eru mikil því þetta er hættuleg staða fyrir Sjálfstæðisflokkinn." Hann segist ekki sjá fyrir sér stofnun nýs flokks óánægðra sjálfstæðismanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×