Enski boltinn

Gerrard ósáttur með harða gagnrýni á Torres og Hodgson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er ósáttur með harða og að hans mati ósanngjarna gagnrýni á framherjann Fernando Torres og knattspyrnustjórann Roy Hodgson. Torres hefur verið gagnrýndur fyrir skort á mörkum á tímabilinu og byrjun Roy Hodgson hefur gengið illa þar sem botninunum var náð með tapi á heimavelli á móti Blackpool. Tapið þýddi að Liverpool-liðið situr nú í fallsæti.

„Þetta er alveg út í hött. Það er auðvelt að horfa á fótboltaleik og segja að líkamstjáning framherjans sé ekki rétt ef hann skorar ekki eða býr eitthvað til úr engu," sagði Steven Gerrard um gagnrýnina á Fernando Torres. „Þegar leikmaður er ekki kominn í form eða er að ná sér góðum eftir meiðsli þá er það bara eðlilegt að líkamstjáning hans sé ekki fullkomin," sagði Gerrard.

„Fólk segir það sama um mig þegar ég er að spila mig í gang eftir meiðsli eða þegar ég er að spila meiddur," sagði Gerrard.

„Fernando hefur sýnt það hversu góður hann er þann tíma sem hann hefur spilað hér. Það sjá allir sem vilja sjá að hann er enn að koma sér í sitt besta form," sagði Gerrard og bætti við:

„Ég trúi á hann og hann er okkar aðalmaður. Hann er frábær leikmaður og okkar aðal-markaskorari. Við þurfum allir að styðja við bakið á Fernando og hjálpa honum að komast í það form sem hann var í þegar hann spilaði sitt fyrsta tímabil hér. Í svoleiðis formi þá er hann besti framherji í heimi," sagði Gerrard.

„Það er líka ósanngjarnt að kenna stjóranum um lélega byrjun á tímabilinu. Við erum allir í þessu saman og þá á ég við alla hjá félaginu. Við þurfum að sætta okkur við okkar ábyrgð og standa saman ef við ætlum að snúa þessu við. Það væri fullkomin byrjun að vinna derby-leikinn á móti Everton," sagði Gerrard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×