Fótbolti

Einkunnir íslenska landsliðsins gegn Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Líkt og venjulega gefur Fréttablaðið leikmönnum íslenska landsliðsins einkunn fyrir frammistöðu sína. Gefið er frá einum upp í tíu og þurfa leikmenn að spila að lágmarki 20 mínútur til þess að fá einkunn.

Íslenska liðið stóð sig vel á Parken í gær og var óheppið að tapa leiknum undir lokin.

Einkunnir Íslands:

Gunnleifur Gunnleifsson 8

Þegar reyndi á Gunnleif stóð hann vaktina mjög vel. Hann varði nokkrum sinnum mjög vel og var öruggur í sínum aðgerðum. Markið var klaufalegt en það er ekki við hann að sakast. Átti þó nokkrar slakar markspyrnur.

Birkir Már Sævarsson 7

Sinnti varnarhlutverkinu ágætlega og átti nokkra góða spretti upp kantinn í leiknum. Sýndi að hann býr yfir góðum hraða og var nálægt því að skora í seinni hálfleik.

Sölvi Geir Ottesen 7

Var fastur fyrir í vörninni og skilaði sínu vel af sér. Barðist mjög vel og var harður í horn að taka.

Kristján Örn Sigurðsson 7

Spilar nánast undantekningarlaust vel með landsliðinu og slíkt var einnig tilfellið í gær. Góður í návígjum og las sóknarleik Dana mjög vel. Gekk illa að skila af sér bolta.

Indriði Sigurðsson 6

Var í afar erfiðu hlutverki gegn hinum stórhættulega Dennis Rommedahl í fyrri hálfleik. Lenti í smá basli en hefði mátt fá meiri hjálp í baráttunni við hægri væng danska liðsins.

Rúrik Gíslason 8

Sýndi að hann á heima í byrjunarliðinu. Samviskusamur með eindæmum og einna duglegastur að sækja fram og byggja upp sóknir.

Aron Einar Gunnarsson 8 - maður leiksins

Einn af hans allra bestu landsleikjum. Kæfði miðjuspil Dana og stöðvaði ófáar sóknir. Átti nokkrar fínar rispur fram á við í seinn i hálfleik.

Eggert Gunnþór Jónsson 8

Var í svipuðu hlutverki og Aron og var afar fastur fyrir í fyrri hálfleik. Afar duglegur og lét finna vel fyrir sér.

Jóhann Berg Guðmundsson 6

Betri en gegn Norðmönnum og það kom meira úr honum í þessum leik. Átti þó í vandræðum í fyrri hálfleik en bætti fyrir það með betri frammistöðu í þeim síðari.

Gylfi Þór Sigurðsson 7

Hljóp mikið og sinnti ef til vill meira varnarhlutverki en maður í hans stöðu á að venjast. Skilaði sínu ágætlega.

Heiðar Helguson 5

Duglegur eins og alltaf en fékk úr afar litlu að moða í fyrri hálfleik. Var meira með í spilinu í seinni hálfleik en fór þá nokkrum sinnum illa að ráði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×