Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, virtist slá til Michael Brown í viðureigninni gegn Portsmouth í gær. Atvikið átti sér stað seint í leiknum sem Liverpool vann 4-1.
Á upptökum sést Gerrard fara með olnbogann að höfði Brown og velta enskir fjölmiðlar því nú fyrir sér hvort Gerrard fái refsingu frá enska knattspyrnusambandinu vegna þess.
Það minnkar líkurnar á að honum verði refsað frekar að dómarinn Stuart Atwell sá atvikið og dæmdi aukaspyrnu. Hann gæti þó verið beðinn um að skoða það betur á myndbandsupptöku.
Gerrard var tekinn af velli skömmu seinna en Rafael Benítez, stjóri Liverpool, segir að þetta atvik hafi ekki haft nein áhrif á að sú skipting var framkvæmd. Benítez segist ekki búast við að enska knattspyrnusambandið muni aðhafast frekar vegna þessa máls, þetta hafi aðeins verið lítilræði.
Gerrard slapp við refsingu í síðustu viku þegar hann virtist sýna dómaranum Andre Marriner V-merkið sem er ekki ofarlega á vinsældarlista Breta.