Enski boltinn

Staðfest: NESV hefur keypt Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Henry, nýr eigandi Liverpool.
John Henry, nýr eigandi Liverpool.

John Henry og NESV, eignarhaldsfélag hans, eru nýir eigendur enska knattspyrnufélagsins Liverpool. Það fékkst loks staðfest nú síðdegis.

„Ég er stoltur og fullur auðmýktar," sagði Henry þegar hann hitti fjölmiðlamenn í Lundúnum í dag.

Spurður um hvað hann ætli að gera til að koma Liverpool aftur á beinu brautina sagði hann of snemmt að segja til um það.

„Við ætlum að hlusta og við vonum að aðgerðir okkar muni tala sínu máli. Við erum hingað komnir til að vinna sigra," sagði Henry sem gat ekki svarað um hvort nýr leikvangur yrði byggður eða ekki.

Málinu er þar með ekki endilega lokið. Fyrri eigendur Liverpool, þeir Tom Hicks og George Gillett, hafa gefið það út að þeir ætli að höfða skaðabótamál og krefjast 1,6 milljarða dollara í skaðabætur.

Þetta þýðir að skuld Liverpool við RBS-bankann verður væntanlega greidd að fullu og félagið fer ekki í greiðslustöðvun eins og margir hafa óttast síðustu daga og vikur.

Liverpool mætir Everton á útivelli á sunnudaginn og er ólíklegt að Henry verði þá í stúkunni. Hann vill fyrst hitta stuðningsmenn á Anfield.

NESV er helst þekkt fyrir að eiga bandaríska hafnarboltaliðið Boston Red Sox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×