Íslenski boltinn

Fyrsta umferð Pepsi-deildarinnar klárast í kvöld - Svona fór í fyrra

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði í fyrstu umferðinni í fyrra. Skorar hann í kvöld?
Alfreð Finnbogason skoraði í fyrstu umferðinni í fyrra. Skorar hann í kvöld? Fréttablaðið
Það er mikil spenna fyrir leikina í Pepsi-deild karla í kvöld en þá klárast fyrsta umferðin. Valur og FH gáfu deildinni góð fyrirheit með fínum leik á Vodafone-vellinum í gær.

Það er mikilvægt að byrja mótið vel og til upprifjunar tók Vísir saman gengi liðanna sem leika í kvöld á Íslandsmótinu í fyrra.

Breiðablik mætti Þrótti í 1. umferðinni á síðasta tímabili á heimavelli. Liðið vann 2-1 sigur með mörkum frá Kristni Steindórssyni og Alfreð Finnbogasyni. Hjörtur Júlíus Hjartarson skoraði mark Þróttar.

Keflavík byrjaði mótið með stæl. Það lagði FH á heimavelli sínum með einu marki gegn engu. Hólmar Örn Rúnarsson skoraði markið. KR byrjaði líka vel, með 2-1 heimasigri á Fjölni þar sem Björgólfur Takefusa og Jónas Guðni Sævarsson skoruðu. Jónas Grani Garðarsson skoraði mark Fjölnis.

Fylkir vann Val 1-0 í fyrra með marki Kjartans Ágústs Breiðdal.

Stjarnan og Grindavík mættust líka í fyrstu umferðinni í fyrra, einnig á heimavelli Stjörnunnar. Þann leik unnu Garðbæingar 3-1. Guðni Rúnar Helgason, Jóhann Laxdal og Halldór Orri Björnsson skoruðu fyrir spræka Garðbæinga en Gilles Ondo skoraði undir lokin fyrir Grindvíkinga.

Fram og ÍBV mætast í kvöld líkt og í fyrsta leik í fyrra, og aftur á heimavelli Fram. Þá unnu Framarar 2-0 með mörkum Heiðars Geirs Júlíussonar og Hjálmars Þórarinssonar.

Selfoss byrjaði einnig heima í 1. deildinni á síðasta tímabili. Liðið gerði þá 1-1 jafntefli við KA þar sem Guðmundur Þórarinsson skoraði markið. Hinir nýliðarnir, Haukar, byrjuðu úti líkt og í kvöld en þeir lögðu Leikni 0-2 með mörkum frá Guðjóni Pétri Lýðssyni og Anda Janussyni.

Leikir kvöldsins:

Breiðablik - Keflavík

KR - Haukar

Selfoss - Fylkir

Stjarnan - Grindavík

Fram - ÍBV - Beint á Stöð 2 Sport klukkan 20.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×