Íslenski boltinn

7 tímar í fyrsta leik: Vandræði Valsmanna á Vodafone-vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldur Aðalsteinsson í síðasta sigurleik Valsmanna á Vodafone-vellinum sem var 6. júlí 2009.
Baldur Aðalsteinsson í síðasta sigurleik Valsmanna á Vodafone-vellinum sem var 6. júlí 2009. Mynd/Arnþór
Valur og FH leika í kvöld opnunarleikinn í Pepsi-deild karla þegar Íslandsmeistarar síðustu sex tímabila mætast á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Valsmenn leika í kvöld fyrsta leikinn undir stjórn þjálfarans Gunnlaugs Jónssonar og það verður fróðlegt að sjá hvort að liðinu gengi betur á heimavelli sínum en það gerði í tíð Atla Eðvaldssonar í brúnni.

Það verður einnig athyglisvert að sjá hvort að Gunnlaugi takist að breyta þróun síðustu ára og vinna fyrsta leik í mótinu en Valsmenn hafa ekki unnið opnunarleik sinn síðan 2005 sem var þá einmitt fyrsti deildarleikur liðsins undir stjórn Willums Þórs Þórssonar.

Valsmenn unnu ekki heimaleik í Pepsi-deildinni undir stjórn Atla Eðvaldssonar í fyrrasumar en eini heimasigurinn var 3-2 sigur á KA í framlengdum bikarleik 6. júlí í fyrra. 7 af 9 stigum liðsins undir stjórn Atla komu á útivelli.

Valsmenn fengu aðeins tvö stig út úr síðustu sjö heimaleikjum sínum á síðasta tímabilið og slæma gengið á Hlíðarenda hófst einmitt með 0-5 stórtapi á móti FH 2. júlí. Einu stig Valsmanna á Vodafone-vellinum eftir það voru jafntefli á móti Stjörnunni (3-3) og Keflavík (2-2).

Valsmenn hafa tapað fyrsta leik sínum á Íslandsmótinu undanfarin tvö ár og þrívegis á síðustu fjórum árum. Liðið gerði hinsvegar 1-1 jafntefli í eina heimaleik sínum í fyrstu umferð á þessum tíma en sá leikur var reyndar spilaður á Laugardalsvellinum og á móti Fram sem spilar heimaleiki sína þar.

Valsmenn hafa reyndar unnið fyrsta leik sinn á Vodafone-vellinum undafarin tvö sumar og hafa í bæði skiptin lagt Fjölnismenn að velli. Valsmenn unnu Fjölnismenn 2-1 í opnunarleik vallarins 2008 og unnu síðan 3-1 sigur á Fjölni í fyrsta heimaleiknum sínum þar í fyrra.

Síðustu sjö heimaleikir Vals í fyrra:

26.september Valur-KR 2-5 tap

13.september Valur-Stjarnan 3-3 jafntefli

22. ágúst Valur-Breiðablik 0-3 tap

9. ágúst Valur-Fram 1-2 tap

27. júlí Valur-Keflavík 2-2 jafntefli

20. júlí Valur-Fylkir 0-1 tap

2. júlí Valur-FH 0-5 tap

Fyrsti leikur Valsmanna á Íslandsmótinu síðustu ár:

2009 10. maí Fylkisvöllur Fylkir-Valur 1-0

2008 10. maí Keflavíkurvöllur Keflavík-Valur 5-3

2007 13. maí Laugardalsvöllur Valur-Fram 1-1

2006 15. maí Kópavogsvöllur Breiðablik-Valur 2-1

2005 16. maí Hlíðarendi Valur-Grindavík 3-1






Fleiri fréttir

Sjá meira


×