Íslenski boltinn

Lúkas Kostic: Við vinnum okkur út úr þessu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Lúkas Kostic,  þjálfari Grindvíkinga.
Lúkas Kostic, þjálfari Grindvíkinga. Mynd/Vilhelm
„Ég held að ég hafi ekki séð það svartara," sagði Lúkas Kostic, þjálfari Grindvíkinga eftir 1-2 tap sinna manna gegn Val á Grindavíkurvelli í kvöld. Enn á ný voru það varnarmistök sem kostuðu Grindvíkinga stig og sitja þeir stigalausir á botninum eftir fjórar umferðir.

„Við spiluðum betur í seinni hálfleik og fengum góð færi til að jafna undir lokin. Við verðskulduðum meira úr þessum leik en ekkert stig. Við fáum á okkur tvö mjög ódýr mörk eftir augnabliks einbeitingarleysi og það er eitthvað sem má ekki gerast."

Staða Grindvíkinga er mjög slæm enda hefur liðið fengið á sig níu mörk og aðeins skorað eitt. „Staðan er slæm. Við funduðum í vikunni og mórallinn í liðinu er mjög góður. Ef við leikum áfram eins og við gerðum síðustu mínúturnar í þessum leik þá vinnum við okkur út úr þessu," segir Kostic.

Síðasti sigur Grindvíkinga undir stjórn Kostic kom á gegn FH á síðustu leiktíð og þeir eru næstu andstæðingar Grindvíkinga. „Hver einasti leikur er mjög erfiður en við verðum að leika mjög vel til að ná stigum gegn FH. Ég hef mikla trú á þessum hóp og er bjartsýnn, ég kann ekkert annað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×