Miðjumaðurinn Jóhannes Karl Guðjónsson hefur verið settur í tveggja vikna bann hjá Burnley eftir ummæli sem hann hafði um knattspyrnustjóra liðsins, Brian Laws.
„Hann er löngu búinn að tapa klefanum," sagði Jóhannes Karl í viðtali við vefsíðuna fotbolti.net fyrir helgi. „Ég held að allir leikmenn séu búnir að missa trú á honum. Gengi liðsins segir sig sjálft og mér sýnist allt stefna niður á við."
Enskir fjölmiðlar tóku síðan ummælin upp og Laws var ekki hrifinn. Jóhannes Karl hefur verið úti í kuldanum og ekki spilað fyrir Burnley síðan Laws tók við en liðið er í fallsæti.