Enski boltinn

Ferguson vill binda endi á Rooney-söguna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri United.
Alex Ferguson, stjóri United. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson segir að nú sé tímabært að hætta að tala um samningsamál Wayne Rooney og fjölmiðlafárið sem skapaðist í kringum það.

Ferguson ritaði pistil í leikskrá United fyrir leikinn gegn Wolves í ensku deildabikarkeppninni í kvöld.

Eins og kunnugt er gaf Rooney í skyn að hann vildi fara frá United í síðustu viku en virtist svo skipta skyndilega um skoðun er hann skrifaði undir fimm ára samning við félagið.

„Þetta hefur verið erfiður tími fyrir Manchester United og ég efast ekki um að allir eru jafn fegnir og ég að málefni Wayne Rooney hafa verið leyst."

„Við erum hæstánægð með að hann verði áfram með okkur og verði áfram lykilmaður í baráttu okkar fyrir titlum í öllum keppnum, bæði á þessu tímabili og á næstu árum."

„Þegar fréttir bárust af því að Wayne vildi fara hafði viðbrögð fjölmiðla og almennings mikil áhrif og sýndi hversu stórt félag Manchester Unitied er. Það hafði mikil áhrif á hann sjálfan."

„Wayne bað mig og leikmenn afsökunar og nú er kominn tími til að ljúka þessu máli og hugsa um þær áskoranir sem liðið þarf að takast á við á næstunni."

„Við erum með góðan leikmannahóp og er samheldnin og liðsandinn góður. Skipulag félagsins er gott. Það er ekkert að Manchester United."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×