Gunnleifur Gunnleifsson, landsliðsmarkvörður úr FH, var hæstánægður með frammistöðu íslenska liðsins í jafnteflinu við Mexíkó í nótt.
Gunnleifur lék allan leikinn í rammanum.
„Ég er hrikalega stoltur af því að fá að vera hluti af þessum hóp fyrst og fremst. Hér eru menn að berjast með hjartanu. Þvílík varnarvinna og vilji í liðinu. Alveg frábært," sagði Gunnleifur eftir leik.
Seint í leiknum skall hurð nærri hælum þegar Gunnleifi mistókst að grípa boltann sem sveif svo rétt yfir markið.
„Þetta eru erfiðir boltar að eiga við. Ef hann hefði stefnt í markið hefði ég bara tekið einhverja kattar-markvörslu," sagði Gunnleifur Gunnleifsson.