Fótbolti

Þurfti næstum að taka hægri fótinn af Villa

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að einn besti leikmaður HM, David Villa, var næstum því búinn að missa annan fótinn fyrir 24 árum síðan.

Þegar Villa var aðeins 4 ára lenti hann í slæmri lífsreynslu. Hann var í fótbolta með vinum og eldri strákur datt ofan á hann með þeim afleiðingum að hægri fóturinn brotnaði mjög illa.

Svo illa reyndar að læknar íhuguðu mjög lengi að taka fótinn af. Það var ákveðið að sleppa því á endanum en Villa varð að vera í gifsi í hálft ár.

Faðir hans lét það ekki buga sig og á hverjum degi í hálft lét hann strákinn æfa sig í því að sparka með vinstri fæti en Villa var réttfættur.

"Ég held að það sé þessum æfingum að þakka að hann er jafnfættur í dag," sagði pabbinn stoltur.

Villa segist vera mjög þakklátur föður sínum sem vann erfiðisvinnu í námu. Hann var úrvinda er hann kom heim úr vinnunni en gaf sér samt alltaf tvo tíma til þess að æfa með stráknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×