Enski boltinn

Moyes á von á hörkuslag eins og venjulega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Moyes, stjóri Everton.
David Moyes, stjóri Everton. Nordic Photos / Getty Images
David Moyes, stjóri Everton, reiknar ekki með öðru en hörkuslag eins og venjulega þegar hans menn mæta grönnum sínum í Liverpool.

Það er hins vegar afar sjaldgæft að um botnslag sé að ræða þegar þessi tvö lið mætast eins og er tilfellið nú. Everton er í sautjánda sæti deildarinnar og Liverpool í átjánda sem er fallsæti.

„Það er alltaf mikið tæklingar, góðar og vondar, þegar lið mætast í grannaslag. Ég á ekki von á að það muni eitthvað breytast nú. Kannski af því að tæklingar hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu," sagði Moyes.

„Ástæðan fyrir því að fólk hefur svo mikinn áhuga á grannaslögum eins og þessum er að þetta eru miklir baráttuleikir. Það vill þó enginn sjá þessar slæmu tæklingar en stuðningsmenn vilja þó sjá að leikmenn gefi sig allan í leikinn."

„Það er semsagt þannig að við viljum losna við slæmu meiðslin en ekki tæklingarnar. Sjálfur hefði ég engan áhuga á því að þjálfa lið sem tæklaði aldrei."

Dæmi um meiðsli leikmanna í leikjum Everton og Liverpool eru nærtæk. Í leik liðanna í febrúar síðastliðnum meiddist Marouane Fellaini á ökkla eftir að hafa lent í tæklingu Kyrgiakos. Sá fékk að líta rauða spjaldið í leiknum, rétt eins og Everton-maðurinn Steven Pienaar.

Hvorki Fellaini né Pienaar verða með þegar liðin mætast í hádeginu á morgun vegna meiðsla. Hið sama má segja um Phil Jagielka.

Liverpool hefur verið afar mikið í fréttunum síðustu daga vegna kaupa NESV á félaginu. Moyes sagði að það ætti ekki að skipta neinu máli í leiknum.

„Af hverju ættu knattspyrnumenn að hafa áhyggjur af svona löguðu. Þeir vilja bara spila fótbolta. Þetta eru fagmenn og það verða ellefu leikmenn í hvoru liði þegar leikurinn hefst á morgun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×