Enski boltinn

Úlfarnir búnir að kaupa Belgann Jelle Van Damme frá Anderlecht

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jelle Van Damme í leik með Anderlecht.
Jelle Van Damme í leik með Anderlecht. Mynd/AFP
Belgíski landsliðsmaðurinn Jelle Van Damme mun spila með Wolves í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili en Úlfarnir eru búnir að kaupa þennan 26 ára varnarmann frá belgísku meisturunum í Anderlecht.

„Jelle er leikmaður sem ég er búinn að vera að fylgjast með lengi. Ég er mjög ánægður með að okkur tókst að krækja í hann," sagði stjórinn Mick McCarthy á heimasíðu félagsins.

Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Jelle Van Damme spilar á Englandi því hann lék með Southampton tímabilið 2004 til 2005. Van Damme spilaði þó aðeins 6 leiki og hann var lánaður til Werder Bremen eftir að liðið féll úr deildinni.

Jelle Van Damme hefur spilað með Anderlecht frá 2006. Hann á að baki 25 landsleiki en í landsliðinu er hann að berjast um byrjunarliðssætið við fyrirliðann Thomas Vermaelen (Arsenal) og varafyrirliðana Daniel Van Buyten (Bayern Munchen) og Vincent Kompany (Manchester City).

„Með allri viðringu fyrir belgísku deildinni þá er mikill munur á henni og ensku úrvalsdeildinni. Anderlecht er stærsta liðið í Belgíu en með þessu hoppa ég upp um tvö þrep," sagði Jelle Van Damme á heimasíðu Wolves en hann er búinn að gera þriggja ára samning við liðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×