Enski boltinn

Alex Ferguson: Gomes markvörður átti að vita betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heurelho Gomes tekur hér boltann á meðan Nani biður um víti en skömmu síðar var Nani búinn að stela af honum boltanum og skora.
Heurelho Gomes tekur hér boltann á meðan Nani biður um víti en skömmu síðar var Nani búinn að stela af honum boltanum og skora. Mynd/AFP
Nani skoraði sérstakt mark fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar hann innsiglaði sigurinn á 84. mínútu leiksins.

„Þetta var furðulegt mark og það vissi fyrst enginn hvað átti að vera rangt," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United um markið sem Nani skoraði í 2-0 sigri United á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Heurelho Gomes, markvörður Tottenham, lagði boltann þá frá sér eins og að hann héldi að það væri búið að dæma aukaspyrnu en Nani nýtti sér það, tók boltann og skoraði. Aðstoðardómarinn veifaði fyrst en dómarinn fór til hans og dæmdi síðan markið gilt.

„Markvörðurinn var með boltann í höndunum og svo var hann allt í einu kominn í markið. Nani horfði til baka á dómarann og dómarinn sagði honum að boltinn væri í leik þannig að það eina sem hann gat gert var að setja boltann í netið," sagði Ferguson.

„Þú getur ekki litið á dómarann eða línuvörðinn og kennt þeim um þetta. Markvörðurinn átti að vita betur. Hann er reyndur markvörður og þetta var hans klúður," sagði Ferguson.

„Dómarinn lét leikinn halda áfram því markvörðurinn var með boltann. Hann gerði mistökin með því að ætla að fara að taka aukaspyrnu sem aldrei var dæmd. Þetta voru mistökin hans," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×