Enski boltinn

Þurftum að kaupa leikmenn síðasta sumar en ekki selja

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Fernando Torres, framherji Liverpool, segir að félagið hafi blætt fyrir það í vetur að hafa selt sterka leikmenn frá félaginu síðasta sumar.

Liverpool var mjög nálægt því að vinna deildina síðasta sumar en hefur heldur betur misst af lestinni í vetur. Torres segist vita af hverju.

„Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu gengi. Ein af ástæðunum er að við lendum snemma á eftir toppliðunum. Menn fóru á taugum við það. Svo voru það meiðslin sem fóru illa með okkar," sagði Torres og bætti við.

„Eftir tímabilið í fyrra vantaði okkur styrkingu á ákveðnum stöðum sem og að halda hópnum saman. Aðstæður leiddu aftur á móti til þess að við urðum að selja leikmenn og fyrir vikið fór allt til fjandans. Sölurnar á Arbeloa, Hyypia og Alonso hafa reynst okkur dýrar.

„Alvaro var að vinna mjög mikilvæga vinnu fyrir okkur og spilaði ávallt vel. Fjölhæfni hans var einnig að hjálpa okkur. Sami spilaði kannski ekki í hverri viku en hann var frábær fyrir liðið, innan sem utan vallar.

Og Xabi? Leikmenn eins og hann eru sjaldgæfir. Hann var vélin í liðinu og þegar menn skipta um vél tekur tíma að stilla allt annað."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×