Erlent

Rússnesku njósnararnir fengu æðstu viðurkenningu ríkisins

Anna Chapman.
Anna Chapman.

Forseti Rússlands, Dmitry Medvedev, hefur veitt Önnu Chapman og hinum njósnurunum sem voru í Bandaríkjunum, æðstu viðurkenningu ríkisins fyrir vel unnin störf samkvæmt fréttavef BBC.

Um er að ræða tíu rússneska njósnara en Anna er tvímælalaust frægust þeirra. Samkvæmt rússneskum fjölmiðlum fór verðlaunaafhendingin fram í Kreml í dag.

Bandarísk og rússnesk yfirvöld skiptu á njósnurum sem löndin höfðu handsamað í júlí á þessu ári. Skiptin fóru fram í Vín í Austurríki en löng hefð er fyrir fangaskipti á njósnurum í þeirri borg.

Vladimar Pútin, forsætisráðherra Rússlands, hitti njósnarana í júlí eftir að þeir komu aftur til heimalandsins. Í fjölmiðlum var greint frá því að hann hefði sungið með þeim sovéska ættjarðasöngva.

Málið vakti heimsathygli enda höfðu njósnararnir búið í fjölmörg ár í Bandaríkjunum. Hálfgert æði myndaðist í kringum Önnu Chapman í kjölfarið. Hún fer huldu höfði í dag.

Engar myndir eða sjónvarpsefni eru til af verðlaunaafhendingunni. Þá er ekki fullkomlega ljóst hvort allir njósnararnir hafi hlotið sömu viðurkenningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×