Enski boltinn

Ancelotti vill vera hjá Chelsea næsta áratuginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Ancelotti í sigurhátíð Chelsea um helgina.
Carlo Ancelotti í sigurhátíð Chelsea um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Chelsea, vill fá nýjan samning við félagið og segist tilbúinn að vera hjá félaginu næsta áratuginn.

„Ef öll tímabilin verða eins og þetta væri ég til í að vera hér næstu tíu árin. Ég er reiðubúinn að skrifa undir nýjan samning," sagði Ancelotti við enska fjölmiðla en hann er fimmti stjóri Chelsea á undanförnum 21 mánuði.

Ancelotti á nú tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. „Stöðugleiki er af hinu góða, bæði fyrir félagið og knattspyrnustjórann," bætti hann við.

„Mér líkar vel við lífið í Englandi og það er auðvelt að stýra Chelsea. Félagið veitir manni góðan stuðning og útvegar allt það sem maður þarfnast."

Undir hans stjórn vann Chelsea tvöfalt - bæði í deild og bikar. Hann sagði einnig að það væri ekki þörf á því að breyta leikmannahópi liðsins mikið fyrir næsta tímabil.

„Það eru margir leikmenn meiddir sem munu bætast við hópinn fyrir næsta tímabil - til að mynda Jose Bosingwa og Michael Essien. Við þurfum því ekki að breyta miklu en það gæti verið að 1-2 leikmenn myndu koma til félagsins [í sumar]."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×