Enski boltinn

Leikmenn WBA sáu rautt í tapi gegn Blackpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Michael Oliver er hér að reka Jara af velli.
Michael Oliver er hér að reka Jara af velli.

Leikmenn WBA voru sjálfum sér verstir er þeir heimsóttu Blackpool í kvöld. Tveir leikmanna liðsins fengu að líta rauða spjaldið í leiknum sem Blackpool vann, 2-1.

Strax á 11. mínútu braut Pablo Ibanez, varnarmaður WBA, af sér, víti dæmt og Ibanez rekinn af velli. Charlie Adam skoraði úr vítinu og kom Blackpool yfir.

Þegar tæpur hálftími var búinn af leiknum fauk annar leikmaður WBA af velli. Að þessu sinni var það Gonzalo Jara sem fékk að líta rauða spjaldið hjá Michael Oliver dómara.

Luke Varney afgreiddi síðan leikinn fyrir Blackpool er hann skoraði annað mark liðsins á 62. mínútu. Youssuf Mulumbu náði reyndar að klóra í bakkann fyrir WBA undir lokin en það var of lítið og of seint.

Blackpool er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir leikinn en WBA í því sjötta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×