Enski boltinn

Ferguson: Ég er búinn að vera að biðja um vetrarfrí í 30 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Mynd/Getty Images
Sir Alex Ferguson kennir enska knattspyrnusambandinu um hversu illa enska landsliðinu gekk á HM í Suður-Afríku þar sem að leikmenn liðsins töpuðu svo mikið á því að fá ekkert vetrarfrí á tímabilinu.

Ferguson segir leikmenn enska liðsins hafa verið alveg búnir á því og því hafi alltaf verið ljóst að liðið myndi ekki ná neinum árangri á Hm í Suður-Afríku.

Þrjár af þeim þjóðum sem komust í undanúrslitin, Þýskaland, Holland og heimsmeistarar Spánverja, hafa öll vetrarfrí í sínum deildum. Ferguson segir að enska landsliðið muni ekki ná árangri fyrr en enska úrvalsdeildin taki einnig upp vetrarfrí.

„Enska knattspyrnusambandið þarf að gefa ensku þjóðinni bestan möguleika á að ná árangri á HM," sagði Sir Alex Ferguson.

„Þetta hefur samt alltaf snúist um þarfir sjónvarpsins að vera með leiki í hverri viku. Hugmyndin um vetrarfrí hefur því alltaf verið kæfð í fæðingu. Ég byrjaði að tala um vetrarfrí fyrir 30 árum í Skotlandi og hef haldið því áfram síðan ég kom til Englands," sagði Ferguson.

„Það hefur ekkert gerst í þessum málum en enska knattspyrnusambandið þarf að fara átta sig á því að með núverandi fyrirkomulagi þá er verið að vinna á móti möguleikum enska landsliðsins á HM," sagði Alex Ferguson og bendir jafnfram á Þýskaland.

„Það er mikið álag á Englandi. Í flestum desember-mánuðum þá spilum við átta til níu leiki og það er yfir versta tíma ársins hvað varðar veður og vallaraðstæður," sagði Ferguson.

„Þýskaland tekur alltaf sitt mánaðarlanga frí í janúar og þeir standa sig alltaf betur á HM en allir búast við," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×