Íslenski boltinn

Bjarni Guðjóns: Það er ekkert vanmat í gangi

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Bjarni Guðjónsson fagnar öðru marka KR í kvöld.
Bjarni Guðjónsson fagnar öðru marka KR í kvöld. Mynd/Valli
Bjarni Guðjónsson, fyrirliði KR, var að vonum ósáttur eftir leik liðsins gegn Haukum í kvöld en lauknum lyktaði með 2-2 jafntefli. KR-ingar komust í 2-0 en kraftmiklir Haukar svöruðu og jöfnuðu undir lokin.

„Þegar að staðan er bara 2-0 þá þurfa þeir ekki nema eitt mark og þá er allt galopið. Á meðan að við náum ekki að skora þriðja markið veltur leikurinn á því hver skorar næst, því miður þá voru það þeir í kvöld," sagði Bjarni svekktur en KR-ingar fengu góð færi til að klára leikinn.

„Við fengum fullt af færum til að klára leikinn en gerðum það ekki. En burt séð frá því þá eigum við að sjálfsögðu ekki að fá á okkur tvö mörk á heimavelli," bætti Bjarni við.

„Fyrrihálfleikurinn var góður og það eina sem vantaði upp á var að skora þriðja markið og þá hefði kannski leikurinn þróast öðruvísi. En við ætlum okkur að spila fótbolta í þessu móti og Selfoss eru næstir og það verður eins gegn þeim, þeir munu koma hér eins og grenjandi ljón. Við vitum það og við vitum að þetta eru allt góð lið. Það er ekkert vanmat í gangi hjá okkur því þetta verða allt hörkuleikir," sagði Bjarni í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×