Enski boltinn

Samningur Eiðs ekki lánssamningur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/stokecityfc.com
Samningur Eiðs Smára Guðjohnsen við Stoke City er ekki lánssamningur frá franska liðinu AS Monaco. Hann gerði þess í stað hefðbundinn eins árs samning við Stoke.

Reyndar hefði það litlu breytt enda á Eiður eitt ár eftir af samningi sínum við Monaco. Það var fréttastofa Sky Sports sem greindi frá þessu í morgun.

Kaupverðið er ekki uppgefið en talið í enskum fjölmiðlum vera um tvær milljónir punda eða um 371 milljón íslenskra króna.

Monaco þurfti ekkert að greiða fyrir hann þegar hann fór þangað frá Barcelona fyrir ári síðan. Eiður var sagður fá 75 þúsund pund í vikulaun þar og að hann hafi mátt sætta sig við launalækkun upp á 10 þúsund pund hjá Stoke.

Það skal þó tekið fram að samkvæmt fréttum undanfarinna daga var búist var því að Stoke myndi aðeins greiða hluta launa Eiðs Smára hjá Monaco, samkvæmt samkomulagi lánssamningsins. Sú upphæð var sögð vera um 40 þúsund pund.

Laun Eiðs Smára eru vitanlega trúnaðarmál og því eru umfjöllun fjölmiðla um hans launamál í besta falli vangaveltur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×