Enski boltinn

Albert Riera: Liverpool er sökkvandi skip

Elvar Geir Magnússon skrifar
Albert Riera er mjög ósáttur í herbúðum Liverpool.
Albert Riera er mjög ósáttur í herbúðum Liverpool.

Albert Riera, leikmaður Liverpool, lætur knattspyrnustjórann Rafael Benítez heyra það í viðtali við spænskan fjölmiðil. Hann segist vilja komast burt frá Liverpool sem sé í raun sökkvandi skip.

Riera segir að Benítez hlusti ekki á leikmenn sína og segist efast um að hann sé rétti maðurinn til að taka við Real Madrid. Leikstíll hans sé einfaldlega ekki nægilega áhorfendavænn.

Riera vill komast með Spáni á heimsmeistaramótið í sumar en hefur lítið fengið að spila að undanförnu. „Það fær mann til að hugsa þegar maður er alveg heill og í fínu formi en þjálfarinn talar ekkert við þig," segir Riera.

„Liðið leikur illa og þarf breytingar. Þegar maður er að gera eitthvað rangt á stjórinn að segja manni hvað það sé ef hann treystir á mann. Hann þarf að segja mér hvað ég eigi að gera til að fá að spila. Hann hefur ekkert sagt við mig og það særir mest."

Riera segist ekki vera eini leikmaður Liverpool sem eigi í samskiptaörðugleikum við Benítez. „Hann lítur á sig sem algjöran yfirmann og lokar eyrunum á aðra. Samskipti hans við leikmenn eru nánast engin," segir Riera.

Benítez hefur verið orðaður við Real Madrid en Riera telur hann ekki rétta manninn í starfið. „Hjá Madrid vilja þeir að liðið sé sigursælt og spili flottan fótbolta. Við erum vissulega vinnusamt lið en við spilum ekki frábæran fótbolta," segir Riera.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×