Enski boltinn

Dowie leggur skíðin á hilluna fyrir fallbaráttuna

Elvar Geir Magnússon skrifar
Dowie segist vera fínn dansari.
Dowie segist vera fínn dansari.

Iain Dowie var í gær ráðinn nýr knattspyrnustjóri Hull. Dowie þarf að leggja nýja áhugamálið sitt á hilluna til að glíma við það verkefni að halda Hull í úrvalsdeildinni.

„Ég var búinn að fara í þrjá skíðatíma og þetta er eitt mest spennandi áhugamál sem ég hef komist nálægt. Þetta starf er samt betra," segir Dowie sem lék sér í sérútbúnum brekkum í skíðahöllum.

Phil Brown var látinn taka pokann sinn en hann var litríkur stjóri í meira lagi. Dowie segir að þeir tímar þar sem hálfleiksræðan var haldin fyrir framan áhorfendur og knattspyrnustjórinn söng Beach Boys í hátalarakerfið séu liðnir.

„Þið viljið ekki heyra söngrödd mína. Ég get dansað en ég get ekki sungið. Ég mun ekki taka þátt í svona uppákomum, ég er bara ekki sú týpa," segir Dowie.

Fyrir tilviljun var Dowie staddur í góðgerðar-matarboði ásamt Phil Brown þegar hann fékk símtalið frá Hull og var boðaður á fund. „Við áttum gott spjall og Phil var mjög jákvæður. Ég hef ekki eitt slæmt orð að segja um manninn," segir Dowie sem á erfitt verkefni fyrir höndum enda Hull í næstneðsta sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×