Enski boltinn

Hutton vill fara frá Tottenham

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Alan Hutton í leik með Sunderland
Alan Hutton í leik með Sunderland GettyImages

Skoski varnarmaðurinn Alan Hutton vill yfirgefa herbúðir Tottenham. Hann telur sig ekki fá nægilega mörg tækifæri með liðinu og vill færa sig til félags þar sem hann fær að leika reglulega.

Hutton var keyptur til Tottenham í janúar árið 2008 fyrir níu milljónir punda en hefur fengið fá tækifæri síðan Harry Redknapp tók við stjórnartaumum hjá liðinu. Hann fór til Sunderland að láni á síðasta tímabili og vill yfirgefa Tottenham eftir misheppnaða dvöl í Lundúnum.

„Þetta hefur verið erfitt. Ég skoðaði hvað var í boði í sumar en það gerðist ekkert. Ég fór til Spurs fyrir háa fjárhæð og það er erfitt að fá lið til að bjóða álíka upphæð í mig þegar ég er ekki að spila. Þetta er ekki óskastaða en ég held áfram og geri mitt besta," sagði Hutton sem hefur þó lítinn áhuga á að fara aftur til Rangers eins og orðrómur er uppi um.

„Ég vil vera áfram í Englandi því ég þarf að sanna mig og hef margt fram að færa. Ég vil vera áfram í Suður-Englandi og vonandi gengur það eftir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×